Barnavernd
- Sumir foreldrar þurfa stuðning til langs eða skamms tíma. Sum börn eru vanrækt eða búa við aðstæður sem ógna öryggi þeirra og velferð.
- Hvert sveitarfélag sér um barnavernd meðal sinna íbúa.
- Hlutverk barnaverndar er að styðja fjölskyldur með hagsmuni barnsins að leiðarljósi, óháð uppruna eða ríkisfangi.
- Barnavernd reynir að vinna öll mál í samvinnu við foreldra og forráðamenn barna.
- Þetta er gert í samræmi við íslensk lög um barnavernd og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
- Barnaverndarstofa hefur eftirlit með barnaverndarnefndum landsins. www.bvs.is
Barnavernd – þjónusta
- Þjónusta getur verið í formi ráðgjafar og leiðsagnar, jafnvel inni á heimilum eða sem aðstoð við þátttöku í frístundastarfi barna eða annarri virkni.
- Börn fara stundum til stuðningsfjölskyldu í hverjum mánuði eða í tímabundið lengra fóstur. Sum börn fara í langtíma fóstur hjá fósturfjölskyldum.
- Barnaverndarnefndir geta úrskurðað um vistun utan heimilis til tveggja mánaða. Lengri vistanir þurfa dómstólar að fjalla um, þ.e. héraðsdómur og stundum landsréttur.
Ofbeldi og vanræksla gagnvart barni
- Ofbeldi og vanræksla geta haft mjög skaðleg áhrif á þroska barns.
- Barn sem býr við aðstæður þar sem það upplifir mikinn ótta eða það er brotið á því er viðkvæmara seinna meir í lífinu.
- Vanræksla gagnvart barni á líka við ef móðir stofnar lífi ófædds barns síns í hættu.
- Bæði almenningur og opinberir aðilar hafa tilkynningaskyldu til barnaverndarnefnda ef þeir telja að barn:
- búi við óviðunandi uppeldisaðstæður.
- verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.
- stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.
Vanræksla - framhald
- Líkamleg vanræksla á við þætti eins og skort á mat, lélegan fatnað sem samræmist ekki veðri og árstíðum, skort á hreinlæti og óviðunandi húsnæði. Einnig að ekki sé farið með barn til tannlæknis og læknis og örvun fyrir hreyfiþroska ekki sinnt.
- Vanræksla varðandi umsjón og eftirlit er t.d. að skilja barn eftir eitt heima þegar það hefur ekki aldur eða þroska til eða langtímum saman. Einnig útivist eftir að löglegum útivistartíma lýkur. Það á líka við þegar barn er ekki verndað eða í hættu vegna annarlegs ástands foreldris, t.d. vegna áfengis- eða vímuefnaneyslu.
- Vanræksla varðandi nám er t.d. að sinna því ekki að barn mæti í skóla og sinni heimanámi. Einnig að sinna ekki ábendingum skóla um að barn þurfi á sértækri þjónustu að halda. (Aðstoð við heimanám býðst í skólum og hjá samtökum eins og Rauða krossinum og Hjálpræðishernum)
- Tilfinningaleg vanræksla er skortur á tilfinningalegum stuðningi, öryggi, athygli og hvatningu. Í því felst einnig að veita barni ekki eðlilegan aga og mörk í uppeldinu.
- Fagleg og samfélagsleg vanræksla á við skort á úrræðum skóla og félags- og heilbrigðisþjónustu til að jafna kjör og aðstæður fólks og leita leiða til úrbóta. Einnig að bregðast ekki við tilkynningum um vanrækslu eða ofbeldi.
Ofbeldi gagnvart barni
- Allar andlegar og líkamlegar refsingar teljast ofbeldi og getur beiting þeirra verið refsiverð með fangelsisvist.
- Allt ofbeldi á heimili þar sem börn eru telst jafnframt ofbeldi gagnvart börnum.
- Ofbeldi birtist á mismunandi vegu og það að flengja börn, slá þau með höndum eða belti, hrinda eða hrista þau og nota hendur eða hluti gagnvart börnum er líkamlegt ofbeldi.
- Hverskonar niðurlæging, lítilsvirðing, öskur og hótanir er andlegt ofbeldi.
- Um áhrif ofbeldis á börn er m.a. fjallað um í myndinni Tölum um ofbeldi
Barnavernd - tilkynning
- Barnaverndarmál hefjast oft af því foreldrar eða barn hafa samband og leita sér aðstoðar.
- Einnig berast tilkynningar frá skóla, leikskóla, spítala, heilsugæslu, lögreglu, nágranna eða öðrum sem er umhugað um velferð barns.
- Það er hægt að senda inn tilkynningu nafnlaust og rafrænt eða hringja.
- Öllum sem starfa hjá hinu opinbera er skylt að senda inn tilkynningu hafi þeir áhyggjur af barni. Það er aldrei nafnlaust.
- Allar tilkynningar eru skoðaðar. Mál eru annaðhvort látin niður falla eða komið með tillögur til að hjálpa barninu og fjölskyldu þess.
- Barnavernd og neyðarlínan 112 taka við tilkynningum um aðstæður barns.
- Tilkynna þarf til þess sveitarfélags þar sem barnið býr eða vegna bráðatilvika hafa samband við neyðarlínuna í síma 112.
Barnavernd - ýmislegt
- Meginmarkmið með starfi Barnaverndar á Íslandi er að tryggja velferð barna og ekki síst með því að hjálpa fjölskyldum að skapa sér gott fjölskyldulíf.
- Ekki láta börnin ykkar hræða ykkur foreldrana með Barnavernd og leyfa þeim að gera hluti sem þið eruð ósátt við eða sleppa eðlilegum aga og mörkum í uppeldinu.
- Á vef Reykjavíkurborgar er bæklingur á nokkrum tungumálum um börn sem er gott að lesa: www.reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/vid_og_bornin_okkar_2018_is_en_baeklingur.pdf
Hjónaband: Réttindi og skyldur – nokkur atriði úr hjúskaparlögum
- Allir sem hafa náð 18 ára aldri og eru ógiftir mega ganga í hjónaband.
- Ekki má þvinga neinn í hjónaband.
- Hjón eru jafnrétthá í hjúskap og bera jafnar skyldur gagnvart hvort öðru og börnum sínum.
- Hjón eiga að annast uppeldi barna sinna saman og skulu skipta með sér verkefnum á heimili eins og hægt er og einnig útgjöldum vegna heimilisreksturs og framfærslu fjölskyldu.
- Fjárhagur hjóna er sameiginlegur. Hjónum er skylt að veita hvort öðru upplýsingar um fjármál sín.
- Eignir hjóna eru sameiginlegar og kallast hjúskapareign. Hjón geta átt séreign hvort um sig en svo það sé löglegt þarf að gera svokallaðan kaupmála og skrá hjá sýslumanni.
- Það er hægt að gifta sig hjá presti og forstöðumanni trúfélags, hjá sýslumanni eða fulltrúa hans eða hjá borgaralegum vígslumanni (til dæmis hjá Siðmennt).