Landneminn er kennsluvefur
Vefurinn hýsir kennsluefni í samfélagsfræðum fyrir fullorðna innflytjendur á Íslandi.
Að frumkvæði Félagsmálaráðuneytis var Vinnumálastofnun falið að sjá til þess að búið væri til heildrænt kennsluefni í samfélagsfræðslu. Gerð námsefnis var boðið út og reyndist Mímir símenntun hlutskarpastur og hefur borið hitann og þungan af þeirri miklu vinnu sem farið hefur í gerð námsefnisins. Um ljósmyndir og myndbönd sá Eyjafilm. Stefna ehf. sá um vefinn.
Víðtækt samráð var haft við flóttamannateymi Vinnumálastofnunar og fleiri hagaðila sem lásu efnið yfir og gerðu athugasemdir. Helstu hagaðilar voru Vinnumálastofnun, Rauði krossinn á Íslandi, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Fjölmenningarsetur, ASÍ, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Þroskahjálp og Mannréttindaskrifstofa Íslands. Einnig var leitað til fólks sem tilheyrir markhópnum og annarra með erlendan bakgrunn til að fá hugmyndir varðandi efnið.
Samkvæmt kennsluáætlun er miðað við að kennsla efnisins fari fram á 50 klukkustundir. Stefnt skal að því að nemendur fái kennsluna á sínu móðurmáli og er kennsluefnið nú þegar aðgengilegt á níu tungumálum. Líklegt þykir að tungumálum muni fjölga er fram líða stundir.
Samfélagsfræðsla til fullorðinna flóttamanna er mikilvægt verkefni og því skiptir miklu máli að vel til takist. Verkefnið kemur til með að vera lifandi og í sífelldri þróun. Það er ítarlegt og víðfeðmt og mikilvægt að það sé hnökralaust og hafi einungis að geyma réttar og óumdeildar upplýsingar.
Samfélagskennslan skal hafa þann útgangspunkt að upplýsingaþörfin er tvíhliða. Íslensk yfirvöld vilja koma ákveðnum upplýsingum til skila og þeir innflytjendur sem nýkomnir eru til Íslands hafa þörf fyrir tilteknar upplýsingar.
Tilgangur og markmið samfélagsfræðslunnar er:
- Að öðlast þekkingu á mikilvægum sögulegum, félagslegum, efnahagslegum, menningarlegum, lagalegum og pólitískum aðstæðum á Íslandi – og að þeir geti tjáð sig um þessar aðstæður.
- Að tileinka sér þekkingu um eigin réttindi, tækifæri og skyldur í íslensku samfélagi – og hvernig þeir geta notað þessa þekkingu í daglegu lífi.
- Að geta tjáð sig og fjallað um grundvallar gildi og áskoranir í íslensku samfélagi. Lýðræði, jafnrétti og mannréttindi – og að þeir geti rætt sínar eigin skoðanir á slíkum málefnum.
Ábendingum og fyrirspurnum má beina til Vinnumálastofnunar: flottamenn@vmst.is