Fjölmenningardeild Vinnumálastofnunar
- Fjölmenningardeild (Multicultural and Information Centre) tilheyrir Vinnumálastofnun sem er opinber stofnun. Þar er veitt ráðgjöf í málefnum innflytjenda til einstaklinga, stofnanna og sveitarfélaga á íslensku, ensku, pólsku, úkraínsku, rússnesku, arabísku og spænsku.
- Á www.mcc.is má finna ítarlegar og gagnlegar upplýsingar á mörgum tungumálum um flutning til landsins eða búsetu á Íslandi
- Opnir viðtalstímar á Grensásvegi 9 frá 9-13 mánudaga til fimmtudaga og frá 9-12 á föstudögum
- MCC Web chat er opið alla virka daga frá 9-11
- Símaráðgjöf á opnunartíma VMST 450-3090 og 515-4800
- Fyrirspurnir má senda á mcc@vmst.is
Rauði krossinn á Íslandi
- Rauði krossinn á Íslandi býður upp á þjónustu og félagsstarf sem snýr að innflytjendum.
- Starfið felur í sér að skapa félagsleg tengsl, sálfélagslegan stuðning og leiðir til að kynnast samfélaginu.
- Þar má nefna verkefni eins og vinaverkefni innflytjenda, þjálfun í að tala íslensku, margvíslega ráðgjöf og ýmsa viðburði.
- Einnig er fjölbreytt sjálfboðastarf félagsins opið innflytjendum.
Hjálparsamtök
- Flóttafólk (og aðrir innflytjendur) hafa einnig nýtt sér úrræði hjá öðrum hjálparsamtökum og má sem dæmi nefna Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn (www.herinn.is) og Samhjálp.
- Hjálparstarf kirkjunnar hefur boðið upp á verkefni sem snúa að sálrænum og félagslegum stuðningi og virkniúrræði, sérstaklega fyrir konur sem eru umsækjendur um, eða hafa fengið, alþjóðlega vernd. www.hjalparstarfkirkjunnar.is
- Samhjálp rekur m.a. kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni 1a, Reykjavík. Þar er boðið upp á frían mat fyrir fólk sem býr við erfiðar félagslegar aðstæður; morgunkaffi, meðlæti og heita máltíð í hádeginu, alla daga ársins, helgar jafnt sem helgidaga. www.samhjalp.is
Þjóðskrá Íslands
- Þjóðskrá Íslands heldur fasteignaskrá og þjóðskrá. Stofnunin gefur út vegabréf, nafnskírteini og ýmis vottorð.
- Hjá Þjóðskrá Íslands eru allir skráðir sem búa eða hafa búið á Íslandi. Fólk sem flytur innanlands á að tilkynna flutning innan sjö daga frá flutningi.
- Þjóðskrá gefur út kennitölur. Þar á líka að skrá nöfn barna og nafnabreytingar.
- Það skiptir miklu máli að nöfn og fæðingardagar séu rétt skráð frá upphafi í þjóðskrá – það getur verið erfitt að breyta slíku eftir á.
- Þeir sem ætla að gifta sig verða að hafa samband við þjóðskrá og fá staðfestingu á hjúskaparstöðu.
- Þjóðskrá er í Borgartúni 21, 105 Reykjavík og Hafnarstræti 107, 600 Akureyri.
- Það er hægt að gera margt rafrænt á vef þjóðskrár. www.skra.is
Dvalarleyfi
- Margir útlendingar sem vilja búa á Íslandi þurfa dvalarleyfi.
- Dvalarleyfi eru gefin út af Útlendingastofnun (www.utl.is).
- Staðsetning Útlendingastofnunar: Dalvegur 18, 201 Kópavogur.
- Það eru til ólíkar gerðir af dvalarleyfum miðað við tilgang dvalar.
- Skilyrði fyrir dvalarleyfi skiptast í a) grunnskilyrði sem gildir fyrir öll dvalarleyfi og b) önnur skilyrði sem gilda um hverja tegund fyrir sig.
- Útlendingar frá ríkjum utan Evrópska efnahagsvæðisins (EES) eða aðildarríkja EFTA, sem ætla að dvelja á Íslandi lengur en þrjá mánuði, þurfa að fá útgefið dvalarleyfi.
- Það er á ábyrgð hvers einstaklings að gæta þess að hann/hún hafi gilt dvalarleyfi á landinu.
- Það er skylda allra útlendinga sem búa á Íslandi að sækja sjálfir um dvalarleyfi ef þeir þurfa og endurnýja leyfið eftir þörfum (með minnst mánaðar fyrirvara áður en leyfi rennur út).
- Útlendingastofnun getur vísað fólki úr landi sem er ekki með gilt dvalarleyfi.
- Afgreiðslan hjá Útlendingastofnun gefur upplýsingar um hvaða gögn þurfa að fylgja umsóknum og það má finna á www.utl.is
- Hjá Útlendingastofnun er skilað inn umsóknum og fylgigögnum, teknar myndir fyrir dvalarleyfisskírteini, skönnuð fingraför og tekin viðtöl ef á þarf að halda.
Ótímabundið dvalarleyfi Ríkisborgararéttur
- Reglur um rétt á ótímabundnu dvalarleyfi og íslenskan ríkisborgararétt er best að afla sér á www.utl.is
- Það eru bæði mörg skilyrði sem þarf að uppfylla og mörg fylgigögn sem þurfa að fylgja slíkum umsóknum.
- Það getur tafið eða komið í veg fyrir að fá ótímabundið dvalarleyfi eða íslenskan ríkisborgararétt að:
- hafa fengið fjárhagslega aðstoð frá sveitarfélagi eða ríkinu.
- hafa fengið dóm, fyrir t.d. brot á umferðarlögum.
- eiga ólokið mál hjá lögreglu eða dómstólum.
- eiga ólokið mál hjá stjórnvöldum sem getur orðið til þess að þér verði vísað úr landi.
Alþjóðleg vernd
- Þeir sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða eiga þar á hættu dauðarefsingu, pyndingar eða ómannúðlega meðferð eða refsingu eiga rétt á og geta sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi.
- Að auki er heimilt að veita alþjóðlega vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
- Um málsmeðferð vegna slíkra umsókna er fjallað í lögum um útlendinga.
- Útlendingastofnun annast afgreiðslu umsókna.
- Hægt er að kæra úrskurði Útlendingastofnunar til Kærunefndar útlendingamála. www.knu.is
- Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá húsnæði og framfærslustyrk á meðan unnið er úr umsókn þeirra.
- Umsækjendum um alþjóðlega vernd stendur oft til boða að sækja námskeið. Fjöldi og tegundir námskeiða fer eftir reglum þeirrar stofnunar sem sér um mál viðkomandi einstaklings.
- Rauði krossinn á Íslandi sinnir félagslegum stuðningi og hagsmunagæslu fyrir umsækjendur. www.raudikrossinn.is