Erlendir stúdentar
- Háskóli Íslands býður upp á diplómanám í íslensku sem öðru máli og einnig nám á BA stigi í íslensku fyrir erlenda stúdenta. www.hi.is
- Til að komast í diplómanámið þarf að standast TOEFL próf í ensku.
- Til að komast í BA námið í íslensku þarf að hafa stúdentspróf og hafa góðan grunn í íslensku.
- Það er misjafnt eftir öðrum sviðum innan háskólanna hvort gerðar eru kröfur um stöðumat í íslensku eða ensku fyrir erlenda stúdenta.
- Það er best að fá tíma hjá námsráðgjafa í viðkomandi skóla til að skoða möguleika á námi og/eða til að fá metið fyrra háskólanám.
Að meta nám og vottorð frá öðrum löndum
- Ef þú hefur lokið námi eða stundað nám við erlendan skóla getur þú sótt um að fá mat á námi þínu hjá ENIC/NARIC skrifstofunni. www.enicnaric.is
- Ef um lögverndað starfsheiti er að ræða þarf starfsleyfi frá viðkomandi ráðuneyti.
- Á heimasíðu Europass er yfirlit yfir lögvernduð starfsheiti á Íslandi. Sjá www.erasmusplus.is/menntun
- Þegar formlegt mat fer fram þarf umsækjandi að skila inn umsóknarblaði ásamt staðfestu afriti af prófskírteini til ENIC/NARIC sem svarar erindinu með formlegu bréfi.
- Löggilt iðnnám erlendis frá er metið hjá IÐAN fræðslusetur (fyrir utan rafiðngreinar). www.idan.is
Framhaldsfræðsla/fullorðinsfræðsla
- Símenntun er hluti af lífi fullorðinna í sífellt ríkari mæli.
- Sumir ljúka framhaldsskóla, iðnnámi eða háskólanámi seinna á lífsleiðinni. Aðrir skipta um starfsvettvang og læra eitthvað nýtt eða bæta við sig framhaldsnámi. Margir sækja bæði frístundanámskeið og starfstengd námskeið á hverju ári.
- Tæknivæðing, ný störf og sjálfvirknivæðing starfa hefur áhrif á líf og störf fullorðinna. Þörfin fyrir að fylgjast með nýjungum og bæta við sig menntun er mikil.
- Símenntunarstöðvar starfa um allt land og bjóða meðal annars upp á íslenskunámskeið, tungumálanám, frístundanámskeið og nám á framhaldsskólastigi fyrir fullorðna.
- Hjá símenntunarstöðvum býðst einnig ókeypis náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðna.
- Sérstakir tungumálaskólar starfa einnig sem bjóða uppá íslenskunámskeið.
- Sérskólar eins og tölvuskólar, nuddskólar, nám fyrir meirapróf bifreiða, bókhaldsnám og margt fleira eru starfandi.
Námsbrautir FA (Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins)
- Skólar með gæðavottun frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu geta boðið upp á sérstakar námsbrautir sem eru niðurgreiddar af Fræðslusjóði og eru tiltölulega ódýrt nám.
- Dæmi um slíkt nám eru Menntastoðir þar sem fullorðið fólk lærir stærðfræði, íslensku og fleiri greinar sem undirbúning fyrir háskólabrú Keilis eða undirbúningsnám í HR. Að því loknu getur fólk sótt um nám í háskóla. www.keilir.net, www.ru.is
- Námsbrautirnar skiptast í starfstengt nám og almennt nám og má sjá námskrárnar á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, www.frae.is
Námsbrautir fyrir innflytjendur
- Námsbrautir FA sem sérstaklega eru ætlaðar innflytjendum eru:
- Að lesa og skrifa á íslensku, sem er ætluð þeim sem þurfa að læra og þjálfa sérstaklega lestur og skrift auk tölvuþjálfunar og grunn í íslensku.
- Íslensk menning og samfélag, sem er ætluð fólki með nokkurn grunn í íslensku (á stigi 3-4) þar sem áhersla er á íslenskunám, samfélagsfræðslu og tölvuþjálfun.
- Aðrar námsbrautir hafa stundum verið aðlagaðar hjá símenntunarstöðvum að fólki með íslensku sem annað mál. Stutt starfsþjálfun hefur einnig verið tengd námsbrautum.
- Atvinnuleitendum standa til boða ýmis námskeið til að styrkja sig á vinnumarkaði. Vinnumálastofnun heldur utan um þá þjónustu og er í samstarfi við fjölmarga fræðsluaðila.
Raunfærnimat (Validation of non-formal and informal learning)
- Raunfærni er samanlögð færni sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum, búsetu erlendis og fjölskyldulífi.
- Raunfærnimat er staðfesting og mat á raunfærni einstaklings og gerir færni og þekkingu sýnilega með því að meta hana á móti formlegu námi eða kröfum atvinnulífsins.
- Raunfærnimat fer fram í ákveðnum starfsgreinum sem eru fyrir fram skilgreindar. Fer það fram á vegum símenntunarstöðva víða um land.
- Skilyrði eru að vera orðinn 23 ára eða eldri og hafa a.m.k. þriggja ára starfsreynslu úr því starfi sem meta skal. www.frae.is www.naestaskref.is
Náms- og starfsráðgjöf
- Náms- og starfsráðgjafar mæta einstaklingi á hans forsendum og aðstoða við að finna stefnu í námi eða starfi á grunni áhuga, færni og styrkleika.
- Það getur verið gott að tala við náms- og starfsráðgjafa til að auka sjálfsþekkingu, greina áhugasvið, setja sér markmið, fá upplýsingar um námsleiðir og aðstoð við atvinnuleit.
- Náms- og starfsráðgjafar kenna gjarnan námstækni í skólum og styðja nemendur. Þeir veita einnig þjónustu vegna raunfærnimats.
- Náms- og starfsráðgjafar starfa á öllum skólastigum. Hjá símenntunarstöðvum eru viðtöl einstaklingum að kostnaðarlausu.