Lögbundnir frídagar á Íslandi
- Nýársdagur (01.01.)
- Skírdagur
- Föstudagurinn langi
- Páskadagur
- Annar í páskum
- Uppstigningardagur (40 dögum eftir páska)
- Hvítasunnudagur (50 dögum eftir páska)
- Annar í hvítasunnu
- Sumardagurinn fyrsti (þriðji fimmtudagur í apríl)
- Baráttudagur verkalýðsins (01.05)
- Þjóðhátíðardagur Íslendinga (17.06)
- Frídagur verslunarmanna (fyrsti mánudagur í ágúst)
- Aðfangadagur (24. 12.) frá klukkan 12.00
- Jóladagur (25.12)
- Annar í jólum (26. 12.)
- Gamlársdagur (31.12) frá klukkan 12.00
Aðrir hátíðisdagar:
- Með fjölda nýrra íbúa á Íslandi – sem koma alls staðar að úr heiminum – koma fleiri hátíðisdagar inn í íslenska menningu.
- Slíkir dagar eru þó ekki sjálfkrafa opinberir frídagar.
- En það er sjálfsagt að óska (fyrirfram) eftir fríi í vinnu eða í skóla vegna stórra hátíðisdaga. Athugið að slíkt frí er þá ólaunað eða tekið af sumarfríinu.
Gott er að setja áminningu í símann sinn fyrir alla lögbundna frídaga á Íslandi – þá fara börnin ekki óvart í skólann eða þið óvart í vinnuna!
Aðrir merkisdagar
- Afmæli. Misjafnt er hvort fullorðið fólk heldur upp á afmælið sitt en stórafmælum er yfirleitt fagnað. Til siðs er að halda upp á afmæli barna með afmælisboðum fyrir fjölskylduna og/eða vini.
- Skírn eða nafngjöf. Margir láta skíra börn sín í kirkju eða heimahúsi af presti. En einnig er algengt að halda einungis nafnaveislur fyrir börnin sín án þess að tengja nafngjöfina við trúarbrögð. Það er skylda að gefa barni nafn og skrá það hjá Þjóðskrá Íslands áður en barnið verður 6 mánaða gamalt. www.skra.is
Aðrir merkisdagar – framhald
- Ferming. Þegar ungt fólk er á fjórtánda ári getur það fermst. Að fermast þýðir að staðfesta vilja til að vera áfram meðlimur í þjóðkirkjunni. Borgaralegar fermingar tíðkast einnig en þær athafnir hafa ekki trúarlega tengingu. www.sidmennt.is
- Unglingar fara í fermingarfræðslu og læra um trú og siðferðisleg gildi og ræða marga ólíka þætti tilverunnar.
- Fermingarveislur eru haldnar og fá unglingarnir gjarnan peningagjafir frá ættingjum og vinum.
- Það er ekki skylda að fermast á Íslandi, hvorki í kirkju né borgaralega.
- Gifting. Fjölmörg pör gifta sig á hverju ári á Íslandi. Það er hægt að gifta sig í kirkju, hjá öðru trúfélagi eða hjá sýslumanni.
- Fólk af sama kyni má giftast á Íslandi og eru þau hjónabönd jafn gild fyrir lögum og önnur hjónabönd.
- Jarðarför. Það deyja um 2000 manns á Íslandi á ári. Útför frá kirkju er haldin fyrir meirihluta þeirra sem látast. Það er ekki skylda að hafa prest í útför.
- Það eru tvær tegundir af útförum: Jarðarför eða líkbrennsla. Í jarðarför er líkið í líkkistu sem er grafin í jörðu í kirkjugarði. Við líkbrennslu er líkið brennt og krukka með öskunni jarðsett í kirkjugarði.
Trúarlíf á Íslandi
- Trúfrelsi ríkir á Íslandi. Það þýðir að allir geta iðkað trú sína án þess að óttast ofsóknir eða refsingar. Það þýðir líka að öllum er heimilt að ákveða sjálfir hvaða trú þeir aðhyllast eða standa utan trúfélaga.
- Þjóðkirkja Íslands er stærsta trúfélag landsins. Þjóðkirkjan byggir á lúthersk-evangelískum sið. Trú skipar misstóran sess í daglegu lífi fólks en kirkjan er mikilvæg fyrir marga í tengslum við ýmsar athafnir eins og skírn, fermingar, giftingar og jarðarfarir auk jólahátíðarinnar.
- Á Íslandi starfar fjöldi stórra og smærri trúfélaga og ríkir umburðarlyndi í samfélaginu gagnvart ólíkum trúar- og lífsskoðunum fólks.
- Hluti af sköttum fólks rennur til þess trúfélags sem það er skráð í. Íslenska ríkið greiðir laun presta í þjóðkirkjunni.
- Þjóðkirkjan hefur engin áhrif á setningu eða framkvæmd laga og dóma á Íslandi.