Fara í efni

Hefðir og hátíðir – Jól og áramót

  • Jólin eru mikilvæg hefð hjá flestum og stór fjölskylduhátíð. ​
  • Jólin eru til að minnast fæðingar Jesú en fyrr á tímum voru hátíðir á svipuðum árstíma til að fagna því að daginn var farið að lengja. ​
  • Aðventan er mánuðurinn fyrir jól. Fólk gerir margt skemmtilegt á aðventunni, t.d. að baka smákökur, gera jólaföndur og jólakonfekt og fara á jólatónleika. Náungakærleikur er ríkjandi og margir gefa til hjálparstarfs. www.mml.reykjavik.is/2020/12/02/jol-a-islandi ​
  • Íslensku jólasveinarnir eru 13 talsins og byrja að koma til byggða 13 dögum fyrir jól. Börnin trúa því að ef þau setji skóinn sinn út í glugga setji jólasveinarnir litla gjöf í skóinn.
  • Þorláksmessa er 23. desember. Þá borða margir kæsta skötu sem er mjög sterk lykt af. Búðir eru opnar lengi og fólk keppist við að þrífa og gera allt tilbúið fyrir jólin. ​
  • Aðfangadagur er 24. desember. Jólin byrja klukkan sex að kvöldi. Fjölskyldur borða saman góðan mat og opna síðan jólagjafir. Margir fara í messu. Hjálparsamtök hafa gjarnan jólamat fyrir þá sem eru einir á jólunum. ​
  • Jóladagur er 25. desember og annar í jólum 26. desember. Þá er hefð hjá mörgum að halda, eða fara í, jólaboð. ​
  • Gamlársdagur er 31. desember. Algengt er að hafa áramótaboð í heimahúsum og skjóta upp flugeldum. Partý halda oft áfram fram eftir nóttu í heimahúsum eða á skemmtistöðum.

Páskar

  • Páskarnir eru stærsta hátíð kristinnar kirkju. Upprisu Jesú er fagnað. ​
  • Fyrir marga eru páskarnir kærkomið frí eftir langan vetur. Flestir eru í fimm daga samfelldu fríi (frá fimmtudegi til þriðjudags). ​
  • Á páskadag er siður að borða súkkulaðipáskaegg og eru börn yfirleitt mjög spennt fyrir því. ​
  • Það er frí í skólum vikuna fyrir páska. ​
  • Skíðaferðir, sumarbústaðaferðir eða afslöppun heima er algeng í páskafríinu. ​

Fleiri dagar

  • Bolludagur, sprengidagur og öskudagur eru skemmtileg hefð í íslenskri menningu. Þessir dagar eiga uppruna sinn í kaþólskri trú og tengjast föstu fyrir páskahátíðina. ​
  • Bolludagur er á mánudegi í febrúar og fólk borðar mikið af rjómabollum. ​
  • Sprengidagur er daginn eftir og þá er borðað eins mikið af saltkjöti og baunasúpu og hver getur í sig látið. ​
  • Öskudagur er þriðji dagurinn, á miðvikudegi. Þá er nú til siðs að börn klæði sig í búninga og syngi fyrir fólk fyrir nammi. ​
  • Bóndadagurinn er í janúar. Þá er siður hjá mörgum að gefa eiginmönnum sínum gjöf og elda eitthvað gott, eða færa þeim þorramat. Bóndadagur markar upphaf þorrans.​
  • Þorri er fornt norrænt mánaðarheiti. Á þorra eru haldin þorrablót sem eru veislur þar sem borinn er fram sérstakur íslenskur matur sem er súr, reyktur og/eða saltaður, kallaður þorramatur. ​
  • Konudagurinn er í febrúar og þá fá eiginkonur gjarnan blóm og gjafir frá maka sínum. 
  • Sumardagurinn fyrsti er í apríl. Þetta er frídagur og hátíðisdagur fyrir börnin. Það eru haldnar litlar skrúðgöngur og skemmtanir fyrir börn í hverfum Reykjavíkur og í bæjum á landsbyggðinni. ​
  • Þjóðhátíðardagur Íslendinga er 17. júní. Á þessum degi eru hátíðarhöld í öllum bæjum. Það eru skrúðgöngur, skemmtiatriði, leiktæki og tónleikar fyrir fólk. http://mml.reykjavik.is/2020/12/02/tyllidagar/
  • Verslunarmannahelgin er stór ferðahelgi í lok júlí/byrjun ágúst. Frídagur verslunarmanna er á mánudegi og er almennur frídagur. Stórar útihátíðir eru haldnar víða um land þessa helgi þar sem fólk kemur saman og skemmtir sér. Þekktasta útihátíðin er Þjóðhátíð í Eyjum. ​

 Smá í viðbót

  • Á Íslandi halda mörg bæjarfélög bæjarhátíð á sumrin. Slíkar hátíðir eru fjölskylduhátíðir og gaman er að fara í smá ferðalag og heimsækja slíkar hátíðir. ​
  • Það er hægt að fara í dagsferðir á hátíðir í bæi nálægt Reykjavík, eins og Selfoss, Hveragerði, Akranes og Borgarnes. ​
  • Í ágúst eru í Reykjavík haldnar bæði Gleðiganga hinsegin fólks og Menningarnótt sem er afmæli Reykjavíkur. ​ 
Má bæta efnið á síðunni?